Ágúst Örn Guðmundsson ber nú titilinn Herra Ísland eftir sigur í keppninni á miðvikudagskvöld. Hann langar að verða flugmaður og segir aldrei að vita nema hann skelli sér í einkaflugmanninn næsta haust. Hann segir að það hafi aldrei verið ofarlega í huga hans að taka þátt í fegurðarsamkeppni sem þessari heldur hafi hann hálfpartinn verið plataður í að taka þátt í keppninni Herra Norðurland á Akureyri, sem hann síðan vann.
„Í rauninni var mér hálfpartinn ýtt út í þetta fyrir norðan. Ég veit að þeir voru í vandræðum að fá fólk inn í keppnina. Þeir náðu að plata mig í þetta og þetta var mjög gaman. Ég hefði aldrei farið út í þetta sjálfur." Ágúst er frá Kópaskeri en hann stundar nám við Menntaskólann á Akureyri þar sem hann er á síðasta ári á félagsfræðibraut.