Svo virðist sem það sé satt, að ekki sé allt rétt sem skrifað stendur á netinu. Stúlknasveitin Spice Girls hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fregnir um að sveitin hafi hætt við tónleika sína í Buenos Aires í Argentínu eru bornar til baka. Fjöldi fréttavefja í landinu hefur birt fregnir af þessu, en sagan á upphaf sitt í tölvupósti, sem enginn veit hver sendi.
Í tölvupóstinum segir að eftirspurn í Bandaríkjunum og Bretlandi sé svo mikil að sönghópurinn hafi séð sig knúinn til að aflýsa tónleikum í S-Ameríku. Þá er sagt frá því að keppni verði haldin þar sem aðdáendur Kryddstúlkna fái möguleika á því að vinna ferð til Bretlands á tónleika.
Ekkert er auðvitað hæft í þessu og enn stendur til að Spice Girls haldi tónleika sína í Buenos Aires í febrúar næstkomandi.
Hljómleikaferð þeirra Kryddstúlkna hefst í byrjun desember í Vancouver í Kanada og stendur fram á næsta ár.