Howard Donald, einn meðlima bresku hljómsveitarinnar Take That, vill að kannabisefni verði lögleidd í Bretlandi. Donald, sem er 39 ára gamall, hefur valdið miklum deilum með því að segja að kannabisefni séu ekki eins skaðleg og áfengi og að heimurinn væri betri ef allir væru í vímu. „Ef fleiri reyktu kannabisefni, frekar en að drekka áfengi, held ég að það væri minna um slagsmál, minna ofbeldi og færri vandamál,“ sagði Donald.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Donald talar opinskátt um eiturlyf. „Þegar við vorum í hljómsveitinni á sínum tíma notuðum við alsælu og okkur fannst það gaman,“ sagði hann í viðtali fyrir skömmu.
Gary Barlow, forsprakki Take That, hefur einnig viðurkennt að hafa notað fíkniefni í miklum mæli. „Árið 2000 reykti ég svona 15 jónur á dag,“ sagði hann í viðtali í fyrra.
Take That var ein vinsælasta hljómsveit heims á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar en hætti störfum árið 1996. Hún kom aftur saman í fyrra og hefur notið mikillar velgengni í kjölfar sinnar nýjustu plötu, Beautiful World.