20. og síðasti þáttur sjónvarpsþáttaraðarinnar Forbrydelsen var sýnd í danska sjónvarpinu í gærkvöldi. Mikil spenna ríkti fyrir þáttinn en þá var loks upplýst hver það var, sem myrti Nönnu Birk Larsen. Er áætlað að um 2 milljónir manna hafi fylgst með DR 1 í gærkvöldi þar sem sagan var leidd til lykta.
Lokaþátturinn fékk almennt góða dóma í fjölmiðlum í gærkvöldi en vert er að benda þeim Íslendingum, sem ekki vilja vita hvernig þættirnir enda, á að sneiða hjá dönskum fréttavefjum í dag og næstu daga. Bloggarar hafa hins vegar í morgun kvartað yfir því, að of margir lausir endar hafi verið skildir eftir. Berlingske Tidende hefur eftir Ingolf Gabold, yfirmanni leiklistardeildar DR, að það sé eðlilegt.
„Við hefðum ekki getað viðhaldið spennunni í 20 þætti ef Forbrydelsen hefði aðeins fjallað um hver morðinginn var. Þá hefðum við kannski haft efni í tvo 1½ tíma þætti. Í staðinn fjallar sagan einnig um hvað gerist þegar hreyft er við pólitíska valdakerfinu. Og við fáum ekki að vita allt, frekar en í öðrum flóknum morðgátum á borð við Kennedymálið og Palmemálið. Þannig er það nú í raunveruleikanum," segir Gabold.