Heilmikil umræða fer nú fram meðal tónlistaráhugamanna um það hvort íslenskar sveitir eigi að syngja á móðurmálinu eður ei. Umræðan spratt í upphafi af viðtali við Bubba Morthens í Lesbók fyrir nokkru og nú í framhaldinu af Bakþönkum Dr. Gunna í Fréttablaðinu.
Á bloggsíðu doktorsins hafa margir tekið til máls og þar á meðal eru mikilsmetnir tónlistargagnrýnendur dagblaðanna. Uppi eru skiptar skoðanir um skyldur íslenskra tónlistarmanna en ein áhugaverð tillaga til þvingunar var að Rás 2 spilaði ekki tónlist íslenskra sveita nema þær syngju á hinu ástkæra og ylhýra!
Já, hvað fyndist hlustendum Rásar 2 um það ef átta síðustu plötur Bjarkar væru á bannlista sem og Mugison, Pétur Ben, Lay Low, múm, Emilíana Torrini o.fl. o.fl.?