„Þetta er mesta rokklag Evróvisjón-sögunnar. Það þýðir ekkert að koma þessum silkimjúku og sykursætu popplögum á framfæri. Fólkið vill bara flipp og stuð,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunni, sem samdi lagið Hvar ertu nú? sem rokksveitin Dr. Spock flytur í Laugardagslögunum á laugardaginn.
„Þetta lag fjallar um sjómennsku, þetta er alíslenskt og karlmannlegt sjómannalag. Þetta er eina lagið í ár sem samið er út frá þörfum karlmanna,“ segir Doktorinn stoltur.
Aðspurður segir hann það hafa legið í augum uppi að semja lag fyrir Dr. Spock.
„Ég fór bara að hugsa hvað væri hægt að gera til að breyta alveg um stíl, koma með svolitla bombu inn í þessa keppni. Dr. Spock er náttúrlega frábær hljómsveit, lítur vel út og er með sterka nærveru,“ segir Gunni.
„Lagið er mjög þungt á köflum, þetta er eins og stormviðri á sjó, alveg brjálað, en dettur svo niður í spegilslétta rúmbu. Þetta er svolítið skrítið lag, en það venst vel.“
Meðlimir Dr. Spock eru þekktir fyrir skrautlega sviðsframkomu og segir Gunni að engin undantekning verði á því annað kvöld. „Það fer einhver úr að ofan,“ segir hann og hlær.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær munu þau Birgitta Haukdal og Magni Ásgeirsson syngja lag Hafdísar Huldar í keppninni á morgun, en þriðja lagið er svo eftir Magnús Þór Sigmundsson.