„Elvar hefur áhyggjur af því að verða bílveikur," segir Atli Snær Keransson, umboðsmaður hljómsveitarinnar Hellvar, en hún hyggst verða fyrsta hljómsveit landsins sem heldur útgáfutónleika í strætisvagni á ferð um Reykjavík á föstudag eftir viku.
Hellvar gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Bat Out of Hellvar, en hljómsveitina skipa Elvar Geir Sævarsson, Alexandra Sigurðardóttir, Sverrir Ásmundsson og Ragnheiður Eiríksdóttir.
„Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem það eru útgáfutónleikar í strætó," segir Atli, en hann kom með hugmyndina við slit á hljómsveitarfundi á Hressingarskálanum. Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætó bs., líst vel á útgáfutónleikana, sem munu ferðast á milli stoppistöðva í Reykjavík. „Hluti af því að vera í strætó er að það sé jákvæð upplifun," segir Reynir.