Stúlknahópurinn Spice Girls hóf tónleikaferð sína í Vancouver í Kanada í gærkvöldi. Kryddpíurnar léku 22 lög en meðal gesta var knattspyrnumaðurinn David Beckham, eiginmaður Viktoríu Beckham, einnar kryddpíunnar.
Undafarnar þrjár vikur hafa þær æft fyrir tónleikana, en þær verða á ferðalagi í það minnsta þar til í febrúar og koma fram í flestum stórborgum heims, þar á meðal sautján sinnum í Lundúnum í desember og janúar.
Nærri áratugur er síðan kryddpíurnar fimm fóru allar í hljómleikaferð, en Geri Halliwell hætti svo í hljómsveitinni. Þær fjórar sem eftir voru héldu þó áfram störfum fram til ársins 2001. Meðan ferill þeirra stóð sem hæst við lok síðustu aldar seldu þær 55 milljónir platna og náðu níu lögum í fyrsta sæti breska vinsældalistans.