Framleiðendur kvikmyndarinnar um fréttamanninn Borat frá Kasakstan eru enn ekki lausir við málaferli því nú hefur ökukennari sem kemur fram í kvikmyndinni höfðað mál á hendur þeim.
Í myndinni sést ökukennarinn, Michael Psenicska, reyna að kenna Borat að aka bíl. Um leið áminnir hann Borat fyrir kjaftbrúk og aðra ósiði í umferðinni.
Psenicska segist hafa verið fengin til þess að taka þátt í myndinni á fölskum forsendum. Honum hafi verið sagt að um heimildarmynd hafi verið að ræða þar sem fjalla átti um það hvernig útlendingum gangi að aðlagast bandarískum lífsháttum.
Þetta kemur fram í dómsskjölunum en málið var tekið fyrir í New York.
Málið er m.a. höfðað á hendur breska gamanleikaranum Sacha Baron Cohen, sem lék Borat, One America Productions og Twentieth Century Fox Film Corp.
Psenicska segir að hann hafi fengið 500 dali í laun fyrir ökukennsluna, sem hann segir að hafi verið furðuleg upplifun. Hann segir Cohen hafi verið hættulegur í umferðinni, hann hafi drukkið áfengi undir stýri og kallað að kvenkyns vegfaranda að hann væri reiðubúinn að greiða henni 10 dali fyrir kynlíf.
Psenicska krefst að fá greiddar 400.000 dali í skaðabætur vegna blekkinga og þá hafi hann orðið fyrir sálrænu tjóni vegna atburðarins.
Myndin þénaði 270 milljónir dala um allan heim auk rúmar 60 milljónir dala í sölu á DVD-diskum.
Þetta er í fimmta sinn sem farið er í mál við Borat.