Gítarleikarinn Jimmy Page segir að þegar hljómsveitin Led Zeppelin kemur fram í O2 tónleikahöllinni þann 10. desember næstkomandi verði hljómsveitin á sviði í að minnsta kosti tvo klukkutíma. Page segir að upphaflega hafi sveitin verið beðin um að leika í 40 mínútur, en að þeim félögum hafi vart þótt taka því fyrst þeir ákváðu að koma saman á annað borð.
„Ef við spilum bara „No Quarter", „Moby Dick" og „Dazed And Confused" með öllum einleiksköflunum þá er það strax rúmlega klukkutími." Þá segir Page við tónlistartímaritið NME að upphaflega hafi fjórmenningarnir leikið í um 75 mínútur á æfingum, svo 90 en nú sé dagskráin um tveir tímar.
Hann segir þó ólíklegt að tónleikar sveitarinnar verði mikið lengri. „Það er útilokað að ég ráði við þriggja og hálfrar klukkustundar langa tónleika núna. [...] Ég hef bara ekki orkuna til þess lengur."