Stórmyndin I Am Legend verður frumsýnd í Bandaríkjunum næstkomandi föstudag, en hún skartar Will Smith í aðalhlutverkinu og fjallar um mann sem hugsanlega er síðasti maðurinn á jörðinni.
Warner Brothers kvikmyndafyrirtækið sem framleiðir myndina hefur staðið fyrir mikilli auglýsingaherferð í tengslum við myndina, og hefur fyrirtækið meðal annars látið útbúa veggspjöld í anda myndarinnar sem sýna margar af helstu borgum heims í rúst. Ein þessara borga er Reykjavík, en á myndinni má sjá Skólavörðustíginn og Hallgrímskirkju í ansi slæmu ásigkomulagi.
Á meðal annarra borga sem eiga sín veggspjöld má nefna Lundúnir, París, Sydney og San Francisco, og því ljóst að litla Reykjavík er í ansi góðum félagsskap.
I Am Legend verður frumsýnd hér á landi á annan í jólum.