Óla G. Jóhannssyni listmálara á Akureyri hefur verið boðið að halda einkasýningu í Opera-galleríinu í New York og verður hún opnuð 1. maí næstkomandi. Galleríið er umboðsaðili Óla á erlendri grundu og skemmst er að minnast sýningar hans á vegum þess í Lundúnum sl. sumar, þar sem öll verkin, 14 að tölu, seldust á opnunardaginn.
„Ég get ekki neitað því að ég er spenntur. Það verður gaman að sjá hvernig viðtökur maður fær í henni Ameríku,“ segir Óli en það er ekki á hverjum degi sem íslenskir myndlistarmenn halda einkasýningu í New York. Óli gerir það ekki endasleppt þessa dagana því hann hefur fest kaup á gömlu kartöflugeymslunni efst í listagilinu á Akureyri af arkitektastofunni Kollgátu og fær hann húsnæðið afhent í janúar. Hyggst hann opna þar listhús sem hlotið hefur nafnið Festarklettur.