Írska fyrirsætan Katy French lét lífið á sjúkrahúsi í heimalandi sínu síðastliðinn fimmtudag. Fréttavefur Sky News segir frá því að farið var með Katy á sjúkrahús eftir að hún hneig niður á heimili vina sinna.
Lögreglan rannsakar nú hvernig andlát hennar bar að og hvort eitthvað grunsamlegt eða glæpsamlegt hafi átt sér stað. Orðrómur er um að hún hafi látist af of stórum skammti fíkniefna en hún viðurkenndi nýlega að hafa misnotað kókaín. Fíkniefnalögreglan rannsakar einnig málið, sem hefur ýtt enn frekar undir þær getgátur.
Krufning hefur farið fram en niðurstaða um ástæður andláts Katy hafa ekki verið gefnar upp. Katy var mjög vinsæl í heimalandi sínu og var aðeins 24 ára gömul þegar hún lést.