„Þetta var algjör snilld," sagði Ólafur Páll Gunnarsson, umsjónarmaður Rokklands á Rás 2 sem var á tónleikum Led Zeppelin í London í gær. Ólafur sagði tónleikana hafa verið stórkostlega upplifun.
„Þetta var algjör snilld“ sagði Ólafur. „Led Zeppelin tóku mörg af sínum þekktustu lögum og byrjuðu á Good times Bad times, en tóku svo meðal annars Ramble on, Black Dog, Dazed and Confused og Stairway to Heaven, þetta voru svona „greatest hits" tónleikar," sagði Ólafur.
Aðspurður um andrúmsloftið í salnum þegar félagarnir í Led Zeppelin stigu á svið segir Ólafur þakið hafa ætlað að rifna af húsinu, stemmningin hafi verið frábær enda eftirvæntingin mikil.
„Þetta er svo stór viðburður í rokksögunni, þetta voru engir venjulegir tónleikar. Led Zeppelin sýndi það svo sannarlega að þeir voru fullfærir um að flytja þetta. Þeir voru i rosa fínu formi, það kom mér á óvart hvað Robert Plant gat skilað þessu vel, enda engin smá áreynsla á röddina; hann er bara flottasti söngvarinn rokksögunnar," sagði Ólafur.
Led Zeppelin hætti 1980 eftir að John Bonham, trommuleikari, lést. Robert Plant, Jimmy Page, John Paul Jones og Jason Bonham, sonur Johns,spiluðu í 2 tíma og 10 mínútur fyrir um 20.000 manns í O2 Arena tónleikahöllinni í London í gærkvöldi.
Eftir vel heppnaða tónleika rokkgoðsagnanna í gær er það á flestra vörum að Led Zeppelin verði að fara í tónleikaferðalag, svo fleiri geti upplifað flutning þeirra á klassískum lögum úr rokksögunni.