„Það er enginn bardagi auðveldur, en hann fór á minn veg. Ég lét hann spila minn leik og það heppnaðist fullkomlega," segir bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson um sigurinn á sérsveitarmanninum Barry Mairs í blönduðum bardagalistum.
Gunnar sigraði Barry með rothöggi þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af fyrstu lotu. Hver lota er fimm mínútna löng í blönduðum bardagalistum og barist er í þrjár lotur.
Gunnar er atvinnumaður í íþróttinni í Bretlandi og býr ásamt þjálfara sínum í Manchester. Hann hefur unnið fjóra atvinnumannabardaga í röð, alla í fyrstu lotu.
„Ef ég næ þeim á flótta get ég auðveldlega haft áhrif á þá," segir Gunnar um aðferðina sem hann notar til að klekkja á andstæðingum sínum. „Ég tek þá niður og vinn í jörðinni. Aðalmálið er að plata þá þegar ég er að taka þá niður. Láta þá halda að ég ætli að kýla þá. Í rauninni er rosalega erfitt fyrir þá að kýla mig því þeir eru alltaf að hugsa um að ég sé að fara að taka þá niður."