Bandaríska leikkonan Eva Longoria og eiginmaður hennar körfuboltakappinn Tony Parker hafa alfarið vísað á bug staðhæfingum frönsku fyrirsætunnar Alexandra Paressant um að hún hafi átt í ástarsambandi við Parker.
Paressant segir franska knattspyrnumanninn Thierry Henry hafa kynnt sig fyrir Parker í brúðkaupi hans og Longoriu og að þau hafi síðan átt í símasambandi um tíma áður en þau eyddu nótt saman á Park Hyatt hótelinu í París þann 29. september. Þá segist hún hafa heimsótt hann til San Antonio mánuði síðar og að hann hafi þá m.a. rætt kynlíf sitt og Longoriu og m.a. sagt henni að Longoria vildi ekki njóta ásta fyrir framan spegla.
Liza Anderson, fjölmiðlafulltrúi Longoriu vísar staðhæfingunum algerlega á bug. „Þessar fullyrðingar eru algerlega, 100% ósannar. Öll pör sem eru í sviðsljósinu lenda einhvern tíma í slíkri umfjöllun. Þar að auki virðist þetta ekki vera í fyrsta skipti sem þessi kona notar íþróttamann til að reyna að draga að sér athygli,” segir hún.
„Ég elska konuna mína,” sagði Parker er hann var spurður um málið. „Hún er það besta í lífi mínu og ég gæti ekki verið hamingjusamari."
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldinho stefndi Paressant á síðasta ári eftir að hún seldi fjölmiðlum sögu sína þar sem hún hélt því m.a. fram að hann hefði skrópað á æfingar á hverju kvöldi til að skemmta sé með henni á meðan heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu stóð yfir.