Nýjar myndir af Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, og poppsöngkonunni og fyrrum fyrirsætunni Carla Bruni, hafa gefið sögusögnum um samdrátt þeirra byr undir báða vængi. Þau Sarkozy og Bruni sáust saman í Disneylandi á laugardag og munu að minnsta kosti þrjú tímarit birta myndir af þeim í vikunni.
Franska forsetaskrifstofan vildi ekki tjá sig um myndirnar en á heimasíðu tímaritsins L'Express segir, að parið hafi verið afar afslappað og ekki virst taka nærri sér athyglina sem þau vöktu.
Bruni, sem verður fertug á sunnudag, fæddist á Ítalíu og var erfingi hjólbarðaverksmiðju. Hún var tískufyrirsæta áður en hún snéri sér að popptónlist og sást m.a. á stefnumótum með Mick Jagger, Eric Clapton, Donald Trump og Kevin Costner. Hún á eina dóttur.
Sarkozy, sem er 53 ára, tilkynnti nýlega að hann og Cécilia kona hans væru skilin að borði og sæng. Þau áttu einn son saman en Sarkozy á tvo syni af fyrra hjónabandi.