Franska útgáfufyrirtækið Gallimard hefur keypt útgáfuréttinn að nýjustu skáldsögðu Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvíti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bókaforlaginu Bjarti sem gefur verkið út á íslensku. Verkið kemur út hjá Gallimard á næsta ári og að sögn Bjarts er það markmið franska forleggjarans að gera Jón Kalmann „að evrópskum höfundi“.
Tildrög útgáfusamningsins má rekja til Bókmenntahátíðar í Reykjavík sl. haust, er ritstjóri frá Gallimard heyrði Jón Kalman lesa upp úr verkinu, sem þá var ekki enn komið út. Um leið og bókin var heimt úr prentsmiðju var hún send til Frakklands þar sem hún endaði stuttu seinna á útgáfulista Gallimard.
Að sögn Bjarts væntir franska fyrirtækið „langrar og skemmtilegrar siglingar“ með Jóni Kalman, sem er „eitt af stærstu nöfnum evrópskra nútímabókmennta“, eins og segir í fréttatilkynningu um málið.