Stjórnvöld í Tanzaníu hafa komist að þeirri niðurstöðu að stórfelld vanræksla hafi átt sér stað þegar gerð var aðgerð á heila sjúklings, sem þjáðist af hnjámeini. Á sama tíma var skorið í hné á manni sem þjáðist af heilaæxli.
Þann 8. nóvember gekkst Emmanuel Didas undir heilaaðgerð á Muhimbili háskólasjúkrahúsinu í Dar Es Salaam þar sem fjarlægja átti heilaæxli sem ekki reyndist vera til. Á sama tíma gekkst Emmanuel Mgaya, sem var með heilaæxli, undir aðgerð á hné.
Í skýrslu, sem heilbrigðisráðuneyti landsins hefur gert um málið, er vanrækslu lækna og hjúkrunarfræðinga kennt um mistökin.
Didas er nú í Indlandi til frekari læknismeðferðar og er hann sagður á batavegi. Mgaya lést fjórum dögum eftir að hann gekkst undir aðra aðgerð.