Rokkarinn Ozzy Osbourne vinnur nú hörðum höndum að því að skrifa ævisögu sína, en verkið vinnst hins vegar ákaflega hægt þar sem kappinn man harla fátt sem drifið hefur á daga hans.
Ozzy, sem sigraðist á áfengis- og fíkniefnavanda sínum fyrir þónokkru síðan, skrifaði undir milljón punda útgáfusamning við Little Brown útgáfuna fyrir hartnær tveimur árum síðan. Síðan þá hefur útgáfudegi bókar hans margsinnis verið frestað, en nú er búist við henni í verslanir í maí.
„Ég sé það ekki fyrir mér, að þessi bók verði tilbúin eftir fimm mánuði í ljósi þess að Ozzy hefur enn ekki skrifað nokkurn skapaðan hlut. Það er ljóst að lengri tími mun líða þangað til þessi bók kemur út, ef hún mun þá nokkurn tímann koma út,“ sagði vinur rokkarans í viðtali.
Sjálfur viðurkennir Ozzy að vera farinn að kalka, og hann kennir mikilli áfengis- og fíkniefnaneyslu um. „Ég er stundum spurður hvort það sé satt að ég hafi tekið maura í nefið á sínum tíma. Ég þekki sjálfan mig, og mér finnst það ekkert ólíklegt. En man ég eftir því? Nei, engan veginn.“