Frægasti ísbjörn heims, Knútur, mun að öllum líkindum leika í Hollywood-mynd, gangi samningar eftir við eigendur hans í dýragarðinum í Berlín. Knútur var yfirgefinn af móður sinni og komst í heimspressuna í fyrra fyrir það eitt að vera mikið krútt. Eigendur dýragarðsins eiga nú í viðræðum við kvikmyndaframleiðandann Ash Shah um að hann fái að nota Knút í kvikmynd, en björninn hefur aukið tekjur dýragarðsins margfalt frá því að hann var fyrst til sýnis þar.
Shah mun hafa greitt dýragarðinum 100.000 dollara fyrirfram og boðið 5 milljónir dollara að auki fyrir þátttöku dýrsins. Forstjóri dýragarðsins, Bernhard Blaskiewitz, vill ekkert frekar segja um samningaferlið. Framleiðendur kvikmyndarinnar ónefndu vona að hún muni færa þeim viðlíka gróða og fékkst af teiknimyndunum Finding Nemo og Lion King.
Knútur mun þó fyrr sjást á hvíta tjaldinu í mars nk. í þýsku myndinni Knútur og vinir hans, sem ku vera uppvaxtarsaga bjarna. Þar verða fleiri birnir í hlutverkum, bæði hvítabirnir og skógarbirnir.