Bandaríski kvikmyndaleikarinn og leikstjórinn Sean Penn verður formaður dómnefndar kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í maí. Penn segist í yfirlýsingu hlakka til að taka þátt í dómnefndarstörfum í Cannes en sú hátíð hafi lengi mótað strauma og stefnur í kvikmyndalistinni.
Penn, sem er 47 ára, fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni Mystic River árið 2003. Hann leikstýrði nýlega myndinni Into The Wild, sem m.a. hefur verið tilnefnd til Screen Actors Guild verðlauna.
Penn, sem eitt sinn var giftur poppstjörnunni Madonnu, komst í fréttirnar í desember þegar tilkynnt var að hann væri að skilja við eiginkonu sína, leikkonuna Robin Wright Penn, eftir 11 ára hjónaband. Þau eiga saman tvö börn, 14 og 16 ára.