Svo virðist sem rapparinn Jay-Z hafi sagt starfi sínu lausu hjá plötufyrirtækinu Def Jam Recordings vegna þess að hann taldi að hann myndi tapa peningum með því að stýra því áfram.
Að sögn heimildamanns sem þekkir til kappans áttaði rapparinn sig á því að sem tónlistar- og athafnamaður ætti hann kost á því að græða mun meira en að sitja sem framkvæmdastjóri plötufyrirtækisins og sagði því upp.
Eins og kom fram á dögunum ákvað Jay-Z að teygja sig eftir rappskónum í hilluna eftir að hafa séð kvikmyndina American Gangster með Denzel Washington í aðalhlutverki. Myndin mun hafa snert eitthvað innra með Jay-Z sem hann gat ekki byrgt inni og því var ekki annað hægt en að halda í hljóðver og hljóðrita næstu plötu. Von er á henni síðar á þessu ári.
Auk tónlistarferilsins hyggst Jay-Z snúa sér í auknum mæli að fjárfestingum í hótel-, klúbba og veitingaiðnaðinum en rapparinn á nú þegar í þremur klúbbum í New York, New Jersey og Las Vegas. Þá er í undirbúningi stór samningur milli Jay-Z og Apple-tölvufyrirtækisins sem felur í sér að rapparinn hafi yfirumsjón með hiphop-sviði fyrirtækisins.
Jay-Z var á síðasta ári annar tekjuhæsti tónlistarmaður Bandaríkjanna samkvæmt Forbes-tímaritinu með tekjur upp á 83 milljónir Bandaríkjadala.