Tvö bresk götusölublöð fullyrða á forsíðum sínum í dag, að lögregla hafi verið send í hús bandarísku söngkonunnar Britney Spears í Los Angeles vegna þess að óttast var að hún kynni að vinna sér og tveimur ungum sonum sínum mein. Spears fékk í gærkvöldi að fara heim af sjúkrahúsi þangað sem hún var flutt á föstudag.
Spears hafði fengið syni sína í heimsókn í vikunni en neitaði að skila þeim á fimmtudagskvöld eins og fyrir hana hafði verið lagt. Blaðið News of the World fullyrðir í dag, að Kevin Federline hafi hringt í lögreglu og sagt að hann vissi, að byssa væri geymd í íbúð Spears og hann óttaðist að söngkonan kynni að myrða syni þeirra. Hafði Federline sjálfur gefið Spears skammbyssu í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum.
Lögreglumenn og bráðaliðar fóru að húsi Spears í Beverly Hills. Breska blaðið Daily Star segir, að söngkonan hafi neitað að hleypa lögreglu inn og hótað sjálfsmorði. Eftir þriggja tíma þóf hafi lögreglan brotið upp dyr hússins. Spears var síða flutt á sjúkrahús. News of the World hefur eftir lögreglu, að Spears hafi ekki verið undir áhrifum lyfja þegar þetta gerðist þótt hún hefði sólarhringana á undan innbyrt mikið magn af allskonar lyfjum.
News of the World segir að Spears hafi gert samning um að koma fram í sjónvarpsþættinum Dr. Phil á miðvikudag. Þátturinn verður tekinn upp á morgun.