Heimstónleikaferðalag Bjarkar heldur áfram í næstu viku eftir dágott jólafrí. Þá er ferðinni heitið suður og austur á bóginn til Ástralíu og Nýja-Sjálands þar sem Björk kemur fram á Big Day Out-tónleikahátíðinni sem er einskonar farandtónleikahátíð sem haldin er ár hvert þar um slóðir. Frá Ástralíu liggur svo leiðin til Japans með stuttri viðkomu í Suður-Kóru, en í Japan kemur tónlistarkonan fram á tvennum tónleikum í hinni frægu tónleikahöll Budokan. Höllin er hvað helst fræg fyrir að vera sá staður þar sem Bítlarnir héldu sína fyrstu tónleika í Japan, og svo má ekki gleyma hinni stórgóðu plötu Dylans At Budokan sem er fyrir löngu orðin víðfræg.
Á meðal annarra þekktra sveita sem troðið hafa upp í Budokan má nefna ABBA, Kiss, Guns 'N Roses, Ozzy Osbourne og fleiri.