Hvorki fundust ólögleg lyf né áfengi í líkama bandarísku söngkonunnar Britney Spears er hún gekkst nýlega undir efnapróf á Cedars-Sinai sjúkrahúsinu í Los Angeles í kjölfar þess að lögregla var kölluð að heimili hennar.
„Hún er hrein. Þessi dama er jafn hrein og hugsast getur og hefur verið það í nokkurn tíma,” segir ónefndur starfsmaður sjúkrahússins.
Spears var lögð inn á sjúkrahús með valdboði eftir að hún neitaði að afhenda fyrrum eiginmanni sínum syni þeirra tvo sem dvalið höfðu hjá henni.
Skömmu eftir atvikið greindi lögregla frá því að hún hefði verið undir áhrifum óþekktra efna. Síðar var því haldið fram að hún hefði tekið 20 megrunartöflur, 18 jurtaorkutöflur, 18 ofnæmistöflur, 12 verkjatöflur og tíu svefntöflur áður en hún var lögð inn.
Þá hafa ættingjar hennar greint frá því að þeir telji hana hafa þjáðst af geðrænum vandamálum árum saman.