Breski popparinn Robbie Williams segir á bloggi sínu að tónleikaferðalög hafi nærri gengið að sér dauðum og segir óvíst um plötuútgáfu á þessu ári.
„Það kemur e.t.v. ekki heil plata út á þessu ári, og það verður alls ekkert tónleikaferðalag á þessu ári. Til fj#*%$ með það, það síðasta gekk nærri að mér dauðum."
Síðasta plata Robbie, Rudebox, fékk heldur slæma dóma gagnrýnenda en í síðasta mánuði birtu fjölmiðlar orðróm um að Robbie hyggðist fara í stóra hljómleikaferð til að ná sviðsljósinu aftur frá fyrrum félögum sínum í strákasveitinni Take That, sem hefur átt miklu fylgi að fagna síðan þeir komu saman aftur.
Robbie virðist hins vegar ekki taka velgengni þeirra jafn alvarlega og af er látið. „Ég verð að segja að því meiri tíma sem ég eyði utan sviðsljóssins, þess betur kann ég að meta rólegheitin. Því miður þá hef ég líka ofboðslega kappsfulla hlið sem vill gefa út þrjár plötur á ári."
„Hvor vinnur? Ég er viss um að um leið og ég verð leiður þá kem ég aftur. En einmitt núna bíður mín soja-vanillu latté og kjötbaka inni í eldhúsi."