Leikkonan Rachel Bilson, sem þekkt er úr þáttunum „The O.C.,“ segist algjörlega mótfallin því að leika í nektarsenum, og hafi þessi afstaða næstum kostað sig hlutverkið í nýjustu myndinni sinni, „The Last Kiss,“ þar sem hún leikur á móti Casey Affleck.
„Kvikmyndir geta verið kynæsandi eða kynferðislegar án þess að allt sé sýnt,“ segir Rachel í væntanlegu viðtali við Playboy.
Hún segir nýju myndina vera stranglega bannaða börnum, „og það eiga alltaf að vera nektarsenur alls staðar sem mögulegt er, en mér finnst þær óþarfar og ég læt ekki vaða yfir mig.“
Í viðtalinu ræðir Rachel ennfremur um samkeppnina: „Hlutverkin sem mig langar í koma yfirleitt í hlut Kirsten Dunst, Keira Knightley, Scarlett Johansson, Natalie Portman eða Kate Bosworth - jafnvel þótt ég sé unglegri en sumar þeirra.“
„Ég geri mér grein fyrir því að þær voru einu sinni í mínum sporum, og markmiðið hjá mér er að ná þeim áfanga. Vonandi tekst mér það, en hver veit?“