Britney Spears lét ekki sjá sig við fyrirtöku í forræðisdeilu hennar og Kevins Federlines hjá dómarafulltrúa í Los Angeles í dag, en fregnir hermdu að lögmaður Kevins ætlaði að fara fram á við fulltrúann að Britneyju yrði alfarið meinað að hitta syni þeirra Kevins þangað til í apríl.
Spears var svipt umgengisrétti við drengina til bráðabirgða í byrjun janúar eftir að hún neitaði að afhenda Federline þá á umsömdum tíma. Er hún sögð hafa læst sig inni í herbergi með öðrum þeirra og var hún í kjölfarið flutt nauðug á sjúkrahús þar sem talið var hugsanlegt að hún reyndi að skaða sjálfa sig eða aðra. Mark Kaplan, lögmaður Federline, sagði að fyrirtaka málsins í dag væri sú mikilvægasta til þessa.
Lögmaður Kevins sagði í gær að það væri mikilvægt fyrir Britneyju að mæta til fyrirtökunnar í dag því að þá gæfist henni kostur á að andmæla kröfunni um umgengnissviptingu fram í apríl. „Það dugar ekki að leggja slíka kröfu fram símleiðis.“
Nokkur vitni áttu að koma fyrir réttinn í dag, þar á meðal lögreglumenn og hjúkrunarliðar sem kallaðir voru á heimili Britneyjar þegar hún neitaði að afhenda drengina.