Þrátt fyrir að nokkrar nýjar kvikmyndir hafi verið frumsýndar fyrir helgi tókst engri þeirra að slá ævintýramyndina National Treasure: Book Of Secrets af toppnum. Nicolas Cage og félagar eru því í efsta sæti bíólistans aðra helgina í röð, en rúmlega 3.500 manns sáu myndina um þessa helgi, og alls hafa því rúmlega 16.000 manns séð hana hérlendis.
Breska gamanmyndin Death at a Funeral stökk hins vegar beint í annað sætið, en tæplega 2.500 manns skelltu sér á hana um helgina. Myndin segir frá manni nokkrum sem ætlar að veita föður sínum sómasamlega útför, en þegar á hólminn er komið reynist það þrautin þyngri.
Þá var bandaríska hrollvekjan The Mist einnig frumsýnd fyrir helgi, en myndin er byggð á samnefndri sögu hrollvekjumeistarans Stephens King. Leikstjóri myndarinnar er Frank Darabont, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann leikstýrir mynd sem byggð er á sögu Kings. Áður leikstýrði hann bæði The Shawshank Redemption og The Green Mile við góðan orðstír. Rúmlega 2.000 manns þorðu á The Mist um helgina.
Loks frumsýndi Græna ljósið nýjustu mynd leikstjórans Ang Lee, Losti, varúð (Se Jie). Myndin gerist í Sjanghæ stuttu fyrir heimsstyrjöldina síðari. 500 manns skelltu sér á myndina sem er stranglega bönnuð börnum enda ansi svæsin kynlífsatriði í myndinni – en íslenskir bíógestir hafa þó fæstir lagt jafn mikið á sig og fjöldi Kínverja gerði, en þeir þurftu að gera sér ferð til Hong Kong til að sjá myndina sem er bönnuð annars staðar í Kína.