Paul Burrell, bryti og trúnaðarvinur Díönu prinsessu, greindi frá því við réttarhöldin vegna dauða hennar í gær, að prinsessan hafi íhugað alvarlega að giftast hjartaskurðlækninum Hasnat Khan. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Burrell sagði Díönu hafa kynnt Khan fyrir sonum sínum Vilhjálmi og Harry og að hún hafi leitað ráða prests varðandi mögulegt hjónaband kristinnar konu og múslíma. Hann greindi einnig frá því að Frances Shand Kydd, móður Díönu, hafi mislíkað mjög samband hennar við Khan og að því hafi þær hætt að talast við.
Burrell sagði ennfremur að hann telji ekki að Díana hafi haft í hyggju að giftast Dodi al Fayed sem hún var með er hún lést í bílslysi í París árið 1997. Hún hafi alls ekki verið komin yfir ást sína til khan sem hún hafi kallað sálufélaga sinn og sagst elska meira en nokkurn annan.
Khan tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega um prinsessuna um helgina en neitaði að greina frá því hvers vegna upp úr sambandi þeirra slitnaði