Steve Jobs, forstjóri bandaríska tölvuframleiðandans Apple, kynnti á MacWorld ráðstefnu fyrirtækisins í San Francisco nú síðdegis, að fyrirtækið hefði gert samkomulag við kvikmyndafélög í Hollywood sem gerði neytendum kleift að leigja kvikmyndir gegnum iTunes niðurhalsþjónustu Apple.
Þjónustunni var hleypt af stokkunum í dag en stefnt er að því að þar verði um 1000 kvikmyndatitlar í boði í febrúarlok. Notendur geta sótt myndirnar gegn 3-5 dala gjaldi og horft á þær í sjónvörpum, iPhones og iPod spilurum.
Jobs sagði að gerðir hefðu verið samningar við öll helstu kvikmyndaverin, þar á meðal 20th Century Fox, The Walt Disney Studios, Warner Bros., Paramount, Universal Studios Home Entertainment, Sony Pictures Entertainment, Metro-Goldwyn-Mayer, Lionsgate og New Line Cinema.