Bandaríska fyrirsætan Dita von Teese verður gestur austurríska auðmannsins Richard Lugner, á árlegum óperudansleik í Vín í Austurríki í ár. Á síðasta ári var það Paris Hilton sem var gestur Lugner, sem er á áttræðisaldri, en hann hefur það fyrir venju að mæta með frægar konur upp á arminn á óperudansleikinn í Vín.
Meðal þeirra sem hafa verið fylgiskonur hans eru leikkonurnar Faye Dunaway, Sophia Loren, Andie MacDowell, Gerri Halliwell, Pamela Anderson og Carmen Electra. Orðrómur hafði verið uppi um að gestir Lugner að þessu sinni yrðu Beckham hjónin, Victoria og David.
Dita von Teese er fyrrverandi eiginkona rokkarans Marilyn Manson en rúmt ár er liðið frá skilnaði þeirra. Óperudansleikurinn, sem er einn helsti viðburðurinn í samkvæmislífi Vínarborgar, verður haldinn þann 31. janúar nk. Mikil eftirsókn er eftir miðum á dansleikinn en sá ódýrasti er á 230 evrur en sá dýrasti 17 þúsund evrur.
Að sögn Lugner var það dóttir hans sem grátbað um að von Teese yrði gestur hans á dansleiknum eftir að hafa farið á tónleika með Marilyn Manson. Von Teese, sem er 35 ára, heitir réttu nafni Heather Sweet. Hún fór fram á skilnað við Manson í árslok 2006 vegna óásættanlegs ágreinings.