Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur útnefnt leikarann George Clooney sem friðarsendiherra og mun Clooney vinna að verkefnum fyrir SÞ við að koma ýmsum verkefnum sem stuðla að friði á framfæri. Þetta kemur fram á vefsíðu Politiken.
Clooney er sá níundi sem útnefndur er friðarsendiherra af SÞ en aðrir slíkir erindrekar eru leikarinn Michael Douglas, píanóleikarinn Daniel Barenboim, Midori Goto, Yo Yo Ma, rithöfundarnir Paulo Coelho og Elie Wiesel, Jane Goodal og Haya, prinsessa af Jórdaníu.
Clooney hefur ásamt leikurunum Brad Pitt og Don Cheadle aflað fjár fyrir flóttafólk í Darfúr í Súdan, en Clooney er nú staddur þar í landi.