Söngkonan Carla Bruni ætlar ekki með forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, í opinbera heimsókn til Indlands síðar í vikunni líkt og orðrómur hefur verið uppi um. Jafnframt neitar Bruni því að þau hafi gengið í hjónaband. Þetta kemur fram í viðtali við Bruni í franska dagblaðinu Liberation í dag.
Að sögn Bruni hafa þau ekki enn gengið í hjónaband þrátt fyrir að það sé á stefnuskrá hjá þeim. Í viðtalinu kemur fram að hún fari ekki með til Indlands þar sem hún geti ekki tekið þátt í opinberum heimsóknum með forsetanum á meðan þau eru ekki gift.
Sarkozy og Bruni kynntust í nóvember en í október var greint frá því að Sarkozy og eiginkona hans, Cecilia, væru að skilja. Sarkozy hefur talað afar opinskátt um samband sitt og Bruni og hefur það komið mörgum Frökkum á óvart enda ekki algengt að forsetar landsins tali opinberlega um ástarlíf sitt.