Evangelískur söfnuður í Bandaríkjunum ætlar að efna til mótmælaaðgerða við hverja þá minningarathöfn sem kann að verða haldin um leikarann Heath Ledger vegna þess að hann lék samkynhneigðan mann í myndinni Brokeback Mountain.
Einn leiðtoga söfnuðarins, sem er í Topeka í Kansas, greindi frá þessu í dag. Einnig verði því mótmælt harðlega ef Ledgers verði minnst sérstaklega á Óskarsverðlaunahátíðinni í næsta mánuði.
Umræddur söfnuður, Westboro Baptist Church, hefur verið flokkaður sem haturshópur af bandarískri lögfræðirannsóknamiðstöð. Meðlimir söfnuðarins efna reglulega til mótmæla við útfarir hermanna sem látist hafa í Írak, og segja um að ræða refsingu Guðs fyrir að samkynhneigðum skuli leyft að ganga í bandaríska herinn.