Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag að Arnar Laufdal og Fegurðarsamkeppni Íslands skuli greiða Ólafi Geir Jónssyni 500 þúsund krónur í miskabætur fyrir að svipta hann titlinum herra Ísland árið 2005.
Dómnum þótti sýnt, að Ólafur hafi verið sviptur titlinum hr. Íslands 2005
á ólögmætan hátt. Sviptingin hafi auk þess verið meiðandi fyrir Ólaf. Taldi dómurinn sýnt að í sviptingunni og hvernig að henni hafi verið staðið hafi falist meingerð gegn persónu Ólafs.
Forsvarsmönnum keppninnar þótti á sínum tíma Ólafur Geir haga sér með þeim hætti í sjónvarpsþættinum Splash, að hann gæti ekki lengur borið titilinn.
Ólafur segist vera ánægður með niðurstöðuna enda hafi sviptingin verið óréttmæt og meiðandi fyrir sig. Einkum hafi fullyrðingar sem fram komu í fréttatilkynningum sem forsvarsmenn fegurðarsamkeppninnar sendu til fjölmiðla verið afar meiðandi, enda ósannar eins og dómurinn hafi nú staðfest.
Ólafur Geir ætlar að halda upp á þetta á föstudagskvöld á skemmtistaðnum NASA við Austurvöll, með plötusnúðinum Dave Spoon, sem hann flutti inn til landsins til að halda upp á eins árs afmæli fyrirtækisins Agent.is. Fyrirtækið sér um skipulagningu skemmtana, innflutning á tónlistarfólki o.fl.