Það er ljóst að ástarboðskapur teknóboltans Páls Óskars fer vel í landann. Hljómplata hans Allt fyrir ástina var ein af söluhæstu plötum ársins 2007 og nú heilan mánuð inn í árið 2008 virðist platan enn renna mótstöðulaust úr plötuverslunum. Platan heldur toppsætinu frá því í síðustu viku.
Vilhjálmur Vilhjálmsson er án efa einn ástsælasti söngvari íslenskrar tónlistarsögu og ljóst er að Íslendingar eru vel heima í þeirri merku sögu. Platan Myndin af þér, þar sem allar helstu perlur Vilhjálms er að finna stendur í stað í öðru sætinu á milli vikna.
Í þriðja sæti er að finna hljómplötuna Sleepdrunk Seasons með krúttsveitinni Hjaltalín. Hljóðfæraskipan sveitarinnar er með því fjölbreyttasta sem finna má í samtímarokktónlist og það er ekki síst blanda þessara ólíku hljóðfæra sem heillar íslenska plötukaupendur.
Eina nýja íslenska platan á listanum er tónlist Lay Low úr Ökutímum, leikriti sem LA setti upp í haust. Á plötunni er að finna ný lög eftir Lay Low og leikhópinn sem að verkinu stendur, en þar er einnig að finna nokkur Dolly Parton-lög sem Lay Low gerir að sínum. Fjórar erlendar plötur er að finna á listanum að þessu sinni og allt eru það plötur stórstirna; Rods Stewarts, Bobs Dylans, Johns Fogertys og Eagles.
Tónlistarkonan Dísa heldur öðru sætinu á milli vikna en lag hennar „Anniversary“ er fyrsta smáskífa væntanlegrar breiðskífu. Lagið er býsna gott og ljóst að hér er á ferðinni listamaður sem kemur næsta fullskapaður fram. Lag Védísar Hervarar „Happy to be there“ stendur í stað á milli vikna en þeir Einar Ágúst og Stefán Hilmarsson bæta aðeins í og færa sig upp um þrjú sæti með lagið „Hvað er að lokum“.
Sömu sögu er að segja um Amy McDonald sem stekkur upp um heil tíu sæti en þá erum við komin að rokkstjörnunni Dilönu. Þrátt fyrir að Dilana fari hér, að margra mati, heldur illa með Queen-slagarann „Killer Queen“ virðast íslenskir útvarpshlustendur vera á öndverðum meiði. Ef til vill er nóg að vera Íslandsvinur til að á mann sé hlustað. Hver veit?
Að lokum má svo benda á lagið Liverpool 8 sem situr í 19. sæti og er að finna á samnefndri plötu eins frægasta trommara heims, Ringo Starr. Áfram Ringo!