Óperudansleikurinn í Vín í Austurríki var haldinn í gær en dansleikurinn er hápunkturinn í samkvæmislífi borgarinnar ár hvert. Í ár voru knattspyrnumenn áberandi á dansleiknum enda ekki nema fjórir mánuðir í að Evrópukeppni landsliða í knattspyrnu verður haldin í Austurríki og Sviss og voru evrópskir knattspyrnumenn heiðursgestir í hófinu.
En það voru ekki bara knattspyrnumenn sem sýndu listir sínar á dansgólfinu heldur mættu margir af helstu stjórnmálamönnum landsins og viðskiptajöfrar ásamt fræga fólkinu á dansleikinn og glampaði á gull og demanta ásamt orður af öllum gerðum á stærðum er gestir svifu um gólfið.
Opnunaratriði dansleiksins var „fótboltaballett" þar sem dansarar við Óperuhúsið mættu með fótbolta og gul spjöld. Skreytingarnar í lofti Óperuhússins voru meðal annars fótboltar gerðir úr bleikum rósum. Meðal gesta á dansleiknum var þýski knattspyrnumaðurinn Franz Beckenbauer og stjórnandi grísku Evrópumeistaranna í knattspyrnu Otto Rehhagel.
Austurríski auðmaðurinn Richard Lugner mætti með fyrirsætuna Ditu von Teese upp á arminn en hann hefur það fyrir venju að mæta með frægar konur á dansleikinn. Á síðasta ári var það Paris Hilton sem var gestur hans á dansleiknum. Dita von Teese, sem meðal annars er fræg fyrir að vera fyrrum eiginkona rokkarans Marilyn Manson, kvartaði sáran yfir atgangi ljósmyndara á dansleiknum og sagðist ekki einu sinni hafa fengið frið á kvennasalerninu fyrir myndatökum.
Leikkonan Teri Hatcher, sem meðal annars leikur í þáttaröðinni um aðþrengdu eiginkonurnar, mætti á dansleikinn í boði austurríska fyrirtækisins Superfund, lét lítið fyrir sér fara og yfirgaf stúkuna þar sem hún sat sárasjaldan.
Meðal annarra gesta voru Bianca Jagger, fyrrverandi eiginkona Mick Jagger, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, utanríkisráðherra Slóveníu, Dimitrij Rupel, rússneska sópransöngkonan Anna Netrebko og austurríski leikarinn Maximilian Schell.
Alls voru 5.500 gestir á Óperudansleiknum í ár og kostaði miðinn frá 230 evrum en sá dýrasti var á 17 þúsund evrur.