Hætt hefur verið við að sýna myndband með Heath Ledger þar sem hann á að sjást neyta fíkniefna og tala um eigin neyslu. Úrklippur úr myndbandinu hafa verið sýndar í bandarísku sjónvarpi.
Bandarísku sjónvarpsþættirnir Entertainment Tonight og The Insider hafa lýst því yfir á vefsíðum sínum að myndbandið verði ekki sýnt í þáttunum af virðingu við fjölskyldu Heath Ledger.
Fullyrt hefur verið að á myndbandinu sjáist Heath viðurkenna að hafa notað kannabisefni á hverjum degi. Einnig hefur verið sagt að það sjáist til hans neyta kókaíns. Aðrir segja að aðeins sjáist til Heaths drekka bjór og að óþekktur maður sjáist neyta kókaíns.
Entertainment Tonight er sagt hafa keypt myndbandið fyrir stóra upphæð fjár en þeir hafa fengið mikla gagnrýni vegna málsins. Eru þeir sagðir hafa ætlað að notfæra sér dauðsfall Heath til þess að græða peninga og fá meira áhorf.
Heath Ledger lést fyrir viku síðan en grunur leikur á að hann hafi látist af of stórum lyfjaskammti.