Íslenskir tónlistarmenn tóku þátt í kaupstefnunni Midem í Frakklandi lsem lauk gær. Á meðal þeirra sem sóttu Midem á þessu ári voru fulltrúar Senu, Smekkleysu, Mugiboogie, 12 Tóna, Blánóttar, Dimmu og Zonets. Í fréttatilkynningu kemur fram að Mugison hafi náð að tryggja dreifingarsamninga á öllum helstu markaðssvæðum.
„ Flestir aðrir þátttakendur tóku í sama streng og má því búast við verulegri aukningu á alþjóðlegum útgáfum sem stýrt verður frá útgáfufélögum á Íslandi strax á þessu ári," að því er segir í tilkynningu.
Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari segir í fréttatilkynningu að Midem hefði komið mjög vel út fyrir sig. Hún er í viðræðum við breska fyrirtækið Toccata Classics um útgáfu á þremur diskum frá sér en jafnframt hafi hún náð að treysta samböndin sem hún skapaði á PopKomm tónlistar ráðstefnunni sem haldinn var í Berlín síðastliðið haust.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra stóð fyrir móttöku á básnum, þangað sem um 500 manns komu og hlýddu á Mugison sem kom fram með myndarlegum klappkór íslenskra félaga sinna úr tónlistargeiranum.
Þá fundaði menntamálaráðherra, aðstoðarmaður hennar og ráðuneytisstjóri með leiðandi aðilum úr alþjóðlega tónlistargeiranum og kynntist helstu straumum og stefnum í viðskiptum sem varða tónlist nú um stundir, samkvæmt tilkynningu.