Sú var tíðin að börn fóru um bæinn á öskudag og hengdu öskupoka á bak vegfarenda án þess að þeir yrðu þess varir. Þessi skemmtilegi og séríslenski siður hefur því miður nánast lagst af á undanförnum árum en nú hyggjast Heimilisiðnaðarfélagið og menningarmiðstöðin Gerðuberg endurvekja hann og halda námskeið í öskupokagerð fyrir krakka á öllum aldri.
„Þetta er gamall og góður siður sem er að detta upp fyrir því nú eru krakkar farnir að taka upp norðlenska siði og syngja í búðum,“ segir Lára Magnea Jónsdóttir textílhönnuður sem verður leiðbeinandi á námskeiðinu. Sjálf er Lára alin upp á Akureyri og segir að þar hafi bæði tíðkast að syngja á öskudag og hengja poka á vegfarendur.
„Upphaflega voru þetta kannski frekar ungar konur sem hengdu poka aftan á einhvern sem þær voru hrifnar af og má segja að þær hafi verið að reyna að krækja sér í kærasta,“ segir hún.
Til þess að hengja megi öskupoka aftan á einhvern er mikilvægt að vera með títuprjón sem hægt er að beygja. Framboð á slíkum títuprjónum hefur dregist saman á undanförnum árum og vilja sumir tengja minnkandi vinsældir öskupokanna við það. Lára Magnea kann ráð við því.
„Maður þarf að safna títuprjónum úr herraskyrtum sem eru keyptar úti í búð. Það eru einu títuprjónarnir sem hægt er að beygja núna,“ segir hún og bendir jafnframt á að sumir noti einfaldlega litlar nælur í staðinn.
Öskupokagerðin fer fram í Gerðubergi laugardaginn 2. febrúar kl. 15-17.