Yfirvöld í Los Angeles hafa varið þá ákvörðun lögregluyfirvalda í borginni að senda rúmlega tuttugu lögregluþjóna og þyrlu til að fylgja sjúkrabíl er flutti söngkonuna Britney Spears á sjúkrahús fyrr í vikunni. Aðgerðin er sögð hafa kostað borgina um 25.000 Bandaríkjadollara. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Undirbúningur aðgerðarinnar er sagður hafa hafist á mánudag og mun lögregla m.a hafa tekið mið af því að mikil hætta væri á því að ljósmyndarar ækju í veg fyrir sjúkrabílinn eða reyndu að komast inn á landareign Spears þegar hlið hennar yrðu opnuð. Því var götum lokað í nágrenni heimilis hennar og á þeirri leið sem sjúkrabíllinn ók.
Michel Moore aðstoðarlögreglustjóri segist sammála því að synd hafi verið að verja þetta miklum fjármunum í aðgerðina en að lögregla hafi ekki haft neitt val í stöðunni. Talsmaður neyðarmóttöku sjúkrahússins segir innlögn Spears ekki á nokkurn hátt hafa verið ólíka öðrum neyðarinnlögnum að undanskildum tvöhundruð ljósmyndurum sem eltu hana.