Tilkynnt hefur verið að Spice girls ætli að stytta heimstónleikatúr sinn sem hófst í byrjun desember. Seinustu tónleikarnir verða í Bandaríkjunum í lok þessa mánaðar. Sagt er að fjölskyldu- og persónulegar aðstæður stúlknanna séu ástæður þessa.
Í júní þegar túrinn var tilkynntur var sagt að þær ætluðu að ferðast um Evrópu, Bandaríkin, Ástralíu, Kína, Suður-Afríku og Argentínu en hingað til hafa þær aðeins farið um Evrópu og Bandaríkin. Í fréttatilkynningu sem Spice girls sendu frá sér um málið er ekki útilokað að þær haldi tónleika í þeim löndum sem þær sleppa núna einhvern tímann í framtíðinni.
„Við höfum skemmt okkur mjög vel síðustu þrjá mánuði. Það er frábært að vera saman aftur og sjá framan í aðdáendur okkar. Við viljum þakka öllum sem komu að sjá okkur. Okkur þykir mjög leitt að hafa ekki komist á alla áætlaða staði. Við höfum aðrar skuldbindingar í lífi okkar núna en hver veit hvað gerist síðar,“ segir í tilkynningu frá Kryddstúlkunum.