Niðurstöður krufningar á leikaranum Heath Ledger hafa leitt í ljós að dánarorsök hans var of stór skammtur af lyfseðilskyldum lyfjum. Ekki er talið að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.
Sameinuð eitrunaráhrif af lyfjunum oxycodone, hydrocodone, diazepam, temazepam, alprazolam og doxylamine leiddu til dauða leikarans. Öll eru lyfin lyfseðilskyld og eru þekkt róandi geðlyf, róandi lyf, og lyf til að slá á kvíða.
Í lokaniðurstöðum krufningarinnar segir að dánarorsök hafi verið slys, afleiðing misnotkunar á lyfseðilskyldum lyfjum.
Heath Ledger fannst látinn í íbúð sinni í New York þann 22. janúar sl. Hann var hvað þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndunum Brokeback Mountain og Monster's Ball. Hann hafði lokið við tökur á kvikmyndinni The Dark Knight, framhaldi kvikmyndarinnar Batman Begins, er hann lést.