Kanadísk útvarpskona hefur höfðað mál gegn tvíeykinu White Stripes og krefst 70.000 Bandaríkjadala, eða um4,5 milljóna króna. Sveitin er sögð hafa notað hljóðbúta úr þætti konunnar á plötu fyrir átta árum án leyfis.
Útvarpskonan, Dominique Payette, segir að tíu sekúndur, úr útvarpsþætti hennar hafi verið notaðar í leyfisleysi í laginu Jumble Jumble á annari plötu sveitarinnar, De Stijl, árið 2000.
Payette segir þannig hafa verið ráðist á einkalíf sitt og hefur hún höfðað mál gegn hljómsveitinni og útgefendunum Third Man Records og BMG Music í Kanada. Auk þess krefst hún þess að platan verði fjarlægð úr verslunum.
Engum sögum fer af viðbrögðum Jack og Meg White eða útgefendanna.