Líkamsræktarstöðin World Class efnir til óvenjulegrar íþróttakeppni í kvöld en þá mun hópur þekkts fólks keppa í hlaupi í nýja turninum á Smáratorgi. Verður hlaupið upp 15 hæðir til styrktar Fjölsmiðjunni sem er vinnustaður fyrir ungt fólk.
Í tilkynningu frá World Class segir, að hlaupakeppnin sé haldin í tilefni af því að fyrirtækið opnar eftir helgina nýja heilsuræktarstöð á 15. hæð í nýja turninum. World Class og Landsbankinn heita á keppendur að hlaupa upp hæðirnar fimmtán og safna fé til styrktar Fjölsmiðjunni. Hlaupið verður frá kl. 17:45 til 18:45.
Keppendur eru: Jói Fel, bakarameistari, Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, Finnbogi Kristinsson, deildarstjóri í Fjölsmiðjunni, Guðmundur Hrafnkelsson, fyrrum landsliðsmaður í handbolta og starfsmaður Fjölsmiðjunnar, Skoppa og Skrítla, Nína Dögg Filippusdóttir, leikkona og Ellý Ármanns, sjónvarpskona.