Leikkonan Charlize Theron segist hafa drukkið 74 skot þegar hún var valin kona ársins hjá Hasty Pudding-leikfélaginu við Harvard-háskóla á föstudaginn. Við sama tækifæri varð hún að sýna hæfni sína á ýmsum sviðum áður en verðlaunin voru veitt.
Hún sýndi sín bestu tilþrif á dansgólfinu undir dynjandi diskótónlist, setti sig í fyrirsætustellingar og daðraði við mann í fílsbúningi og eftir að hafa leyst þessar þrautir vel af hendi þótti hún hafa unnið sér inn verðlaunin. „Það eina sem tók virkilega á var að halda öllu þessu áfengi niðri, annars var þetta ekkert mál,“ sagði Theron eftir afhendinguna, en líklegt má telja að hún hafi ruglast eitthvað þegar hún taldi skotin.
Áður hafa leikkonur á borð við Scarlett Johansson, Meryl Streep, Jodie Foster, Julia Roberts, Meg Ryan, Halle Berry og Catherine Zeta-Jones hlotið þennan heiður.