Breska söngkonan Amy Winehouse fékk fimm Grammyverðlaun þegar bandarísku tónlistarverðlaunin voru veitt í nótt. Winehouse komst ekki á hátíðina þar sem hún fékk ekki vegabréfsáritun en hún flutti lag sem sýnt var í beinni sjónvarpsútsendingu á verðlaunahátíðinni.
Winehouse fékk verðlaun fyrir plötu ársins, Back to Black, lag ársins, Rehab, hún var valin besti nýi listamaðurinn, besta poppsöngkonan og fékk einnig verðlaun fyrir besta sönginn á plötu.
Winehouse þakkaði m.a. eiginmanni sínum, Blake Fielder-Civil og
tileinkaði honum ein af verðlaununum. Winehouse var lögð inn á
meðferðarstofnun nýlega vegna fíkniefnaneyslu.
Jasspíanóleikarinn Herbie Hancock fékk verðlaun fyrir plötu ársins, River: The Joni Letters og skákaði þar Foo Fighters, Vince Gill, Kanye West og Winehouse.
Rapparinn Kanye West, sem fékk átta tilnefningar, fékk fern verðlaun, þar á meðal fyrir bestu rappplötuna, Graduation.
Meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni voru Tina Turner og Beyonce, John Mayer, Kanye West, Foo Fighters, Josh Grobin og Andrea Bocelli. Meðal þeirra sem afhentu verðlaun voru Cher, Prince, Stevie Wonder, Quincy Jones og Ringo Starr. Kanadíska rokksveitin The Band fékk sérstök heiðursverðlaun.
Volta, plata Bjarkar Guðmundsdóttur, var tilnefnd sem besta framsækna platan en þau verðlaun hreppti sveitin The White Stripes fyrir plötuna Icky Thump.