Heather Mills átti í sex mánaða ástarsambandi við mann að nafni Tim Steel á meðan hún var að kynnast Paul McCartney, að því er segir í breska dagblaðinu News of the World. Steel sem vinnur við kvikmyndaklippingar sagði að Heather hefði haft óþrjótandi þörf fyrir kynlíf og átt ríkulegt safn kynlífstækja sem hún notaði þegar Steel naut ekki við.
Í viðtali við blaðið segir Steel að Mills hafi skemmt sér yfir því að McCartney hafi gengið með grasið í skónum á eftir henni og sýndi Steel meðal annars sms-skilaboð frá Bítlinum. Segir hann að Mills hafi aldrei verið sérstaklega hrifin af McCartney en séð ákveðin tækifæri fólgin í því að giftast honum.
Að undanförnu hefur Mills reynt að telja McCartney á að gera sátt í skilnaðarmáli þeirra en því hefur Bítillinn hafnað. Málið var tekið fyrir í gær og lýkur að öllum líkindum í lok þessarar viku. Heather flytur sitt mál sjálf eftir hafa rekið lögfræðiteymi sitt sem hún segir hafa brugðist sér og veitt sér slæma ráðgjöf. Er reiknað með að hún muni fara fram á 50 milljóna punda greiðslu í peningum og 30 milljónir í eignum og viðhald á þeim.
Heather Mills og Paul McCartney giftust árið 2002 en skildu fjórum árum síðar. Þau eiga eina dóttur saman, Beatrice, sem er fjögurra ára gömul.